Viktor Örn Andrésson, Matreiðslumaður ársins 2013 og Matreiðslumaður Norðurlanda 2014, hefur nú hafið undirbúning fyrir þátttöku í Bocuse d‘Or, sem er oft kölluð hin eina sanna heimsmeistarakeppni í matreiðslu. Hann hefur nú sagt starfi sínu sem yfirmatreiðslumaður Lava Restaurant í Bláa lóninu lausu til að einbeita sér að verkefninu, að því er fram kemur á vef Viðskiptablaðsins.
Keppnin Bocuse d‘Or hefur verið haldin síðan 1987 og komast færri þjóðir að en vilja. Tuttugu og fjórar þjóðir fá keppnisrétt eftir að hafa unnið forkeppni í sinni heimsálfu, og fimm efstu sætin í sjálfri keppninni tryggja þeim þjóðum sjálfkrafa keppnisrétt næst.
Íslendingar hafa tekið þátt í Bocuse D‘Or undanfarin fimm skipti, frá 1999, með vægast sagt glæsilegum árangri. Við höfum alltaf verið í topp níu af 24 þjóðum á heimsmeistaramótinu og hæst náð þriðja sæti. Tölfræðin sýnir að við erum nú meðal sex bestu þjóða heims á sviði matreiðslu. Það er mér mikill heiður að fá að taka þátt í svona stórri og mikilvægri keppni og mjög gaman að fá að keppa við stóru strákana í faginu. Það er eitthvað sem maður býr að alla ævi,
segir Viktor í samtali við Viðskiptablaðið fullur tilhlökkunar.
Nú eru sjö mánuðir í keppnina og tíminn verður nýttur vel. Mitt markmið er að ná topp fimm í Evrópukeppninni í Búdapest í maí 2016, og síðan að lenda á palli í heimsmeistarakeppninni í Lyon í janúar 2017. Þetta leggst gríðarlega vel í mig.
Brot úr viðtali sem birt var í Eftir vinnu, fylgiriti Viðskiptablaðsins..
Official Social Media Bocuse d’Or