Bocuse d´Or Akademía Íslands hefur valið næsta Bocuse d´Or kandídat og mun Bjarni Siguróli Jakobsson keppa fyrir Íslands hönd í forkeppni Bocuse d´Or í Turin, Ítalíu vorið 2018. Bocuse d´Or forkeppnin er fyrir aðalkeppnina sem haldin verður í Lyon í janúar 2019.

Bjarni Siguróli er sjálfstætt starfandi matreiðslumeistari og rekur eigið fyrirtæki undir heitinu Reykjavík Gastronomy. Í gegnum tíðina hefur hann m.a. starfað á og stjórnað eldhúsum eins og Geira Smart, Slippbarnum og Vox ásamt veitingahúsum í Danmörku sem skarta í dag 2* og 3* Michelin stjörnum.

Þá vann hann til fjölda gull- og silfurverðlauna sem liðsmaður Íslenska kokkalandsliðsins á árunum 2013-2017 og gegndi stöðu fyrirliða liðsins frá 2015.

Bjarni hefur tekið þátt í fjölmörgum einstaklings matreiðslukeppnum og hlaut m.a. titilinn Kokkur ársins á Íslandi árið 2012 og hreppti silfur í keppninni Matreiðslumaður Norðurlanda 2013.

Á næsta ári mun Bjarni hefja undirbúning fyrir Bocuse d’Or, Europe sem haldin er eins og áður segir í Turin, Ítaliu vorið 2018 og úrslitakeppnina í Lyon, Frakklandi janúar 2019.

Bocuse d’Or er heimsmeistarakeppni einstaklinga í matreiðslu og er af virtustu fagmönnum talin mest krefjandi matreiðslukeppni í heimi.

Það má með sanni segja að Bjarni er verðugur fulltrúi okkar íslendinga í hinni heimsfrægu Bocuse d´Or keppni.

Mynd: Kristinn Frímann